Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði hefur verið lokað vegna veðurs, sem og veginum um Kjósarskarð.
Óvíst er hversu lengi sú lokun muni standa yfir. Vegagerðin ætlaði að reyna eftir fremsta megni að halda Þrengslavegi opnum en honum var lokað skömmu fyrir klukkan 13.
Þá er Kjalarnesi lokað frá Þingvallavegi að Grundarhverfi um óákveðinn tíma vegna alvarlegs umferðarslyss.
Samkvæmt upplýsingum frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar, er mjög djúp lægð að koma hratt upp að Reykjanesi. Veður og færð geta spillst mjög snögglega nærri hádegi. Sunnan- og suðvestanlands gengur í SA 18-25 m/s, slydda í byggð en hríð og kóf á Hellisheiði og víðar. Hann segir að óveðrið standi stutt á þessum slóðum en bresti á í öðrum landshlutum eftir miðjan dag.
Á Suðurlandi tekur appelsínugul viðvörun gildi á hádegi og gildir til klukkan 15 en frá klukkan 15 til klukkan 20 verður gul viðvörun í gildi á Suðurlandi.