Hellisheiði og Þrengslum lokað vegna veðurs

Ökumaður flutningabíls lenti í vandræðum þegar hann þurfti að snúa …
Ökumaður flutningabíls lenti í vandræðum þegar hann þurfti að snúa bifreið sinni við rétt fyrir neðan Litlu kaffistofuna um hádegisbil. Allt fór þó vel að lokum. Hellisheiði hefur verið lokað vegna veðurs, sem og Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði hefur verið lokað vegna veðurs, sem og veginum um Kjósarskarð. 

Óvíst er hversu lengi sú lok­un muni standa yfir. Vega­gerðin ætl­aði að reyna eft­ir fremsta megni að halda Þrengslavegi opn­um en honum var lokað skömmu fyrir klukkan 13. 

Þá er Kjalarnesi lokað frá Þingvallavegi að Grundarhverfi um óákveðinn tíma vegna alvarlegs umferðarslyss.

Samkvæmt upplýsingum frá Ein­ari Svein­björnssyni, veður­fræðing­i Vega­gerðar­inn­ar, er mjög djúp lægð að koma hratt upp að Reykja­nesi. Veður og færð geta spillst mjög snögg­lega nærri há­degi. Sunn­an- og suðvest­an­lands geng­ur í SA 18-25 m/​​s, slydda í byggð en hríð og kóf á Hell­is­heiði og víðar. Hann seg­ir að óveðrið standi stutt á þess­um slóðum en bresti á í öðrum lands­hlut­um eft­ir miðjan dag.

Á Suður­landi tek­ur app­el­sínu­gul viðvör­un gildi á há­degi og gild­ir til klukk­an 15 en frá klukk­an 15 til klukk­an 20 verður gul viðvör­un í gildi á Suður­landi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is