Lítið ferðaveður eftir hádegi

Kort/Veðurstofa Íslands

Áfram er gert ráð fyrir vonskuveðri og hafa verið gefnar út appelsínugular og gular viðvaranir víða um land í dag. Veðrið tekur að versna um hádegi og skánar í kvöld. Á morgun hvessir að nýju og dagana á eftir lítur út fyrir þráláta norðan- og norðaustanátt með ofankomu einkum norðan og austan til.

Vetrarfærð er um mestallt land, hálka og snjóþekja. Vegfarendur eru beðnir um að skoða veðurspá vel áður en lagt er á stað í langferð. Unnið er að mokstri en þæfingur er á einhverjum leiðum og varað við mögulegri snjóflóðahættu. Á Vestfjörðum eru margar leiðir ófærar. 

Millilandaflug hefur verið með eðlilegum hætti til og frá Keflavíkurflugvelli í morgun eftir talsverðar raskanir undanfarna daga.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir að mjög djúp lægð komi hratt upp að Reykjanesi. Veður og færð geta spillst mjög snögglega nærri hádegi. Sunnan- og suðvestanlands gengur í SA 18-25 m/s, slydda í byggð en hríð og kóf á Hellisheiði og víðar. Hann segir að óveðrið standi stutt á þessum slóðum en bresti á í öðrum landshlutum eftir miðjan dag.

En er ófært um Ísafjarðardjúp en mokstur stendur yfir. Ófært er á Klettshálsi. Mikill snjór er á Klettshálsi og því tekur mokstur langan tíma. Búið er að opna Súðavíkurhlíð.

„Óstöðugt veður næsta sólarhring, hvassir austanvindar og úrkomusamt í dag, en norðaustanhríðarveður norðvestan til. Fer heldur að draga úr vindi og úrkomu með kvöldinu og hlýnar í bili.

Á morgun snýst í hvassa suðvestanátt með éljagangi, en léttir til norðaustanlands og kólnar. Dagana þar á eftir lítur út fyrir þráláta norðan- og norðaustanátt með ofankomu einkum norðan og austan til. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi og því betra að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum áður en lagt er af stað í ferðalög,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á Suðurlandi tekur appelsínugul viðvörun gildi á hádegi og gildir til klukkan 15. „Austanhríð með vindhraða á bilinu 18 til 25 m/s. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Búast má við samgöngutruflunum og lokunum á vegum. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.“

Frá klukkan 15 til klukkan 20 verður gul viðvörun í gildi á Suðurlandi. „Suðaustan- og sunnanhvassviðri eða -stormur, 15 til 23 m/s, hvassast við ströndina. Varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar og lokanir á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

Á Vestfjörðum gildir appelsínugul viðvörun frá klukkan 17 í dag þangað til 14 á morgun. „Norðaustanhríð með vindhraða á bilinu 18 til 25 m/s. Búast má við talsverðri eða mikilli snjókomu eða éljagangi með skafrenning og lélegu skyggni, einkum í ofankomu. Áframhaldandi slæm akstursskilyrði, samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og færð á vegum.“

Við Faxaflóa gildir gul viðvörun frá klukkan 12 til klukkan 21. „Austan og suðaustan 15-23 m/s, með vindhviður að 35 m/s á Kjalarnesi og við Hafnarfjall og á Snæfellsnesi. Ökumenn fari varlega, einkum ef ökutækin eru viðkvæm fyrir vindi.“

Við Breiðafjörð er gul viðvörun frá klukkan 15 til klukkan 23:30. „Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma eða skafrenningur, hvassast nyrst. Með köflum mjög lítið skyggni.“
Á miðhálendinu tekur gul viðvörun gildi klukkan 11 og gildir til miðnættis.  Þar gengur í austan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi og mjög takmörkuðu skyggni. Ferðalög ekki æskileg.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi austan- og suðaustanátt og fer að snjóa með morgninum og hlýnar, 15-25 m/s sunnanlands, en annars 13-20. Slydda eða rigning eftir hádegi S- og A-lands. Vaxandi norðaustanátt og hríðarveður NV til, 18-25 m/s í kvöld, en hægari suðlægur vindur og úrkomuminni víða annars staðar. Hlýnandi veður og hiti 1 til 6 stig með kvöldinu.
Snýst í suðvestan 15-23 með éljum á morgun, hvassast syðst, en hægara og bjart NA-lands. Áfram norðaustanhríð á Vestfjörðum framan af degi. Dregur úr vindi og éljum um kvöldið og kólnar í veðri.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt, 13-20 m/s og él, en norðaustan 15-23 og snjókoma á Ströndum og Vestfjörðum framan af degi, suðvestan 10-15 og úrkomulítið eystra. Suðlæg átt, 8-13 og víða él með kvöldinu, en birtir til fyrir norðan. Kólnandi veður, frost 1 til 6 stig seint um kvöldið.

Á sunnudag:
Gengur í norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og éljum á NV-verðu landinu, suðvestan 13-18 og él með SA-ströndinni. Annars víða hægir vindar og úrkomulítið. Frost 0 til 8 stig, minnst syðst.

Á mánudag:
Stíf norðaustanátt og með éljum, en þurrviðri SV-lands. Hvessir talsvert og fer að snjóa N og A til síðdegis. Hægt hlýnandi veður.

Á þriðjudag:
Líkur á norðaustanhvassviðri eða -stormi með slyddu eða snjókomu, einkum N- og A-lands og hita nærri frostmarki.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir áframhaldandi austlægar og norðaustlægar áttir með úrkomu í flestum landshlutum og hita kringum frostmark.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is