Ökumenn tveggja bifreiða sem urðu fyrir ruslagámi sem losnaði af vöruflutningabifreið í Kollafirði fyrir hádegi í dag eru enn á gjörgæslu. Ekki er vitað hvað olli því að gámurinn losnaði af flutningabifreiðinni.
Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segist í samtali við mbl.is ekki geta staðfest hvort líðan ökumannanna sé stöðug, en að þeir séu enn á gjörgæslu. Greint var frá því í dag að annar væri með alvarlega höfuðáverka en hinn með annars konar áverka, ekki jafn alvarlega.
Að sögn Valgarðs verður rannsakað hvað olli því að gámurinn losnaði af vöruflutningabifreiðinni, en gámurinn lenti á öðrum vörubíl og lítilli fólksflutningabifreið sem komu úr gagnstæðri átt.
Um það bil tvo klukkutíma tók að hreinsa veginn, en það var gert í leiðindaveðri og höfðu langar bílaraðir myndast á Vesturlandsvegi beggja vegna við slysstað.