Rafmagnstruflun er nú í gangi í landskerfi RARIK á Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði og Grenivík.
Samkvæmt vefsíðu RARIK er nú unnið að því að bæta úr trufluninni, en ekki hafa fengist frekari upplýsingar. Þá segir á vefsíðunni að truflunin hafi hafist um klukkan 15 síðdegis í dag og á að vera lokið um klukkan 19.
Sigurður Ægisson, fréttaritari mbl.is á Siglufirði, segir að rafmagnsleysið hafi komið til mjög skyndilega. Ekkert sé að veðri á svæðinu, en ekki sé útilokað að frostleysi í fyrsta sinn í nokkurn tíma hafi haft áhrif. Þá segir hann að samkvæmt starfsmanni RARIK á svæðinu eigi rafmagnið að vera aftur komið á innan skamms, en það sé þegar komið á á Ólafsfirði.