Rúta með grunnskólabörnum hafnaði utan vegar

Hópurinn var á leið til Akureyrar þegar óhappið varð nærri …
Hópurinn var á leið til Akureyrar þegar óhappið varð nærri Silfrastöðum. Kort/Map.is

Óhapp varð á þjóðvegi eitt í Blönduhlíð á fjórða tímanum í dag þegar rúta með 21 grunnskólabarni á aldrinum 14 til 16 ára hafnaði utan vegar í mikilli hálku og roki.

Engum varð meint af, en börnin hafast nú við í fjöldahjálparstöð í grunnskólanum í Varmahlíð. Þetta staðfestir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Skagafjarðar, í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Hópurinn var á leið til Akureyrar þegar óhappið varð nærri Silfrastöðum, en vegurinn yfir Öxnadalsheiði er lokaður, auk þess sem rútan er enn úti í vegkanti, og er því ljóst að börnin komast ekki leiðar sinnar í bili.

Í kvöld verður reynt að ná rútunni aftur upp á veginn og vonast er til þess að hægt verði að opna Öxnadalsheiði í kvöld.

mbl.is