Tvær rútur fóru út af í óveðrinu

Ökumaður flutningabíls lenti í vandræðum þegar hann þurfti að snúa …
Ökumaður flutningabíls lenti í vandræðum þegar hann þurfti að snúa bifreið sinni við rétt fyrir neðan Litlu kaffistofuna um hádegisbil. Allt fór þó vel að lokum. Hellisheiði og Þrengslum hefur verið lokað vegna veðurs, sem og Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Fjölmargir ökumenn sátu fastir í bílum sínum við Þrengsli og Hellisheiði og sumir hverjir lentu í vandræðum eftir að umferð um svæðin var lokað upp úr hádegi. 

Lítil rúta með 15 farþega fór út af veginum í Þrengslum sem olli því að löng bílaröð myndaðist. Þá lenti smárúta í vanda á Lyngdalsheiði. Samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni hjá Landsbjörg tókst björgunarsveitarfólki að koma rútunum til aðstoðar og greiða úr þeirri flækju sem myndaðist í kjölfarið. Engin meiðsl urðu á farþegum. 

Davíð segir það mikilvægt að fólk fylgist áfram með upplýsingum um færð á vegum og taki ekki neina sénsa á meðan veðrið gengur yfir. Björgunarsveitarfólk er við lokunarpósta við Norðlingaholt og fyrir austan fjall. 

Samkvæmt upplýsingum frá Einar Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar, fara meginskil lægðarinnar sem nú gengur yfir landið hratt til norðurs. Lægðin er djúp og búast má við miklum vindi fram undir kvöld, 20-25 metrum á sekúndu í Ölfusi, Hellisheiði og í Borgarfirði og Dölum. 

Vesturlandsvegur við Kjalarnes hefur verið opnaður aftur fyrir umferð eftir umferðarslys en varað er við mjög hvössum hviðum, 35-40 metrum á sekúndu undir Hafnarfjalli frá klukkan 17 og til miðnættis.



mbl.is