Næsta lægð á mánudag

Kort/Veðurstofa Íslands

Nú er allvíða slæmt veður á landinu og eru viðvaranir í gildi víða. Batnandi veður síðdegis og heldur rólegra veður á morgun, sunnudag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

„Norðaustanstormur og snjókoma framan af degi á Vestfjörðum, einkum norðan til. Suðvestanstormur og kólnandi veður með morgninum suðvestan- og vestanlands ásamt slyddu, en lægir og él eftir hádegi. Lengst af þurrt á Norðaustur- og Austurlandi og lægir einnig þar síðdegis. Heldur rólegra veður á morgun, en snjókomubakki kemur inn á land fyrir norðan, einkum þó við ströndina, og einnig gera spár ráð fyrir snjókomubakka inn á SV-vert landið en styttir upp þar undir kvöld.

Á mánudag er svo von á næstu lægð. Nýjustu spár eru að seinka henni svolítið og eins eru ekki eins mikil hlýindi í henni og fyrri spár hafa gefið til kynna en áhrifa hennar gætir samt mest á þriðjudag og miðvikudag. Vindáttin er lengstum norðaustlæg og í þeirri átt verður úrkoma á þessum árstíma nær eingöngu snjókoma á Vestfjörðum en getur farið yfir í slyddu eða jafnvel rigningu á Norður- og Austurlandi ásamt Suðausturlandi. Suðvestanvert landið myndi þá sleppa einna best frá ofankomunni í næstu viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu.
Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Appelsínugul viðvörun hefur verið í gildi á Vestfjörðum frá því klukkan 17 í gær og gildir hún til klukkan 16 í dag. „Norðaustan 18-25 m/s og talsverð eða mikil snjókoma eða skafrenningur. Slydda um tíma við sjávarmál. Skyggni lélegt og áframhaldandi slæm akstursskilyrði, samgöngutruflanir og lokanir á vegum er líklegt. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og færð á vegum.“

Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Vestfjörðum eru bæði Flateyrarvegur og vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaðir vegna snjóflóðahættu. Spurður út í veðrið segir hann að það rigni núna og sé hvasst en væntanlega fari að bæta í vind fljótlega. Vestfirðingar séu vanir slæmu veðri á þessum árstíma og ekkert óvenjulegt við tíðarfarið núna. 

Varað er við mögulegri snjóflóðahættu í Súgandafirði og á Eyrarhlíð. Lokað milli Patreksfjarðar og Bíldudals, á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Ófært á Kleifaheiði, Klettshálsi og Gemlufallsheiði.

Á Suðurlandi tók gul viðvörun gildi klukkan 6 í morgun og gildir hún til klukkan 12. „Suðvestan 15-23 og él en lægir þegar líður á daginn. Skafrenningur og mjög blint í éljum, einkum á fjallvegum.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru flestar leiðir sunnanlands orðnar greiðfærar eða með hálkubletti en í flestum öðrum landshlutum er mikil hálka á vegum og sums staðar jafnvel flughált.

Við Faxaflóa tók gul viðvörun gildi klukkan 6 í morgun og gildir hún til klukkan 12:30. „Suðvestan 15-23 og él en lægir þegar líður á daginn. Skafrenningur og mjög blint í éljum, einkum á fjallvegum.“
Við Breiðafjörð tekur gul viðvörun gildi klukkan 7:30 og gildir til klukkan 14:00. „Suðvestan 18-25 og él en lægir þegar líður á daginn. Skafrenningur og mjög blint í éljum, einkum á fjallvegum.“

Spáin fyrir næstu daga

Norðaustan 18-25 og snjókoma eða slydda á Vestfjörðum fram undir hádegi. Suðvestan 15-25 annars staðar, hvassast vestanlands. Hiti 0 til 6 stig. Dregur úr vindi um hádegi, kólnar og él, en þurrt um landið austanvert. Suðvestan 5-13 og él í kvöld, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi.


Breytileg vindátt á morgun, allhvöss eða hvöss á Vestfjörðum og sums staðar við N-ströndina, en annars víða 5-13. Snjókoma eða él um landið N-vert, einkum við ströndina fyrripartinn og einnig S- og SV-lands, en úrkomulítið SA- og A-lands ásamt V-landi. Frost 0 til 7 stig, en sums staðar frostlaust við sjóinn.

Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og él, en bjart á Norður- og Austurlandi. Norðlæg átt 5-13 og snjókoma við N-ströndina síðdegis. Frost 1 til 12 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á mánudag:
Vaxandi norðaustlæg átt, víða hvassviðri eða stormur síðdegis. Þykknar upp með dálítilli snjókomu í fyrstu og dregur úr frosti, en slydda um landið sunnan- og suðaustanvert um kvöldið og hiti 0 til 4 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðaustanátt, víða hvassviðri eða stormur. Lengst af snjókoma eða slydda norðanlands með hita um frostmark, en þurrt að kalla Á S- og V-landi og hiti 0 til 4 stig.

Á fimmtudag:
Norðaustanhvassviðri og snjókoma á Vestfjörðum. Annars mun hægari og rigning eða slydda á austanverðu landinu en yfirleitt þurrt SV-lands. Hiti um og yfir frostmarki.

Á föstudag:
Útlit fyrir norðlæga átt. Snjókoma fyrir norðan, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Heldur kólnandi.

mbl.is