Fjórir til viðbótar hyggja á skaðabætur

Frá björguninni á Langjökli.
Frá björguninni á Langjökli. Ljósmynd/Þór Kjartansson

Par frá Bretlandi sem lenti í hrakningum við Langjökul í vélsleðaferð á vegum Mountaineers of Iceland ætlar að krefjast rúmlega milljón króna í miskabætur hvort. Þá hyggjast fjórir ferðamenn til viðbótar krefjast bóta. 

Mbl.is hafði áður greint frá bótakröfu breska parsins, en fram kom í kvöldfréttum RÚV í kvöld að fjórir ferðamenn til viðbótar höfðu leitað til lögmanns parsins, Helga Þorsteinssonar. 

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að kröfubréf breska parsins séu tilbúin og verði send út eftir helgi þar sem fyrirtækið er krafið um viðurkenningu á bótaskyldu og greiðslu bóta, en rætt var við lögmann parsins, téðan Helga. 

Fyrir þremur þremur árum unnu áströlsk hjón mál gegn Mountaineers of Iceland vegna vélsleðaferðar og fengu hjónin hvort um sig 300 þúsund krónur í miskabætur, en farið var fram á hærri bætur í því máli. Helgi telur þær bætur sem áströlsku hjónunum voru dæmdar vera of lágar og telur kröfu breska parsins upp á rúmlega milljón krónur í miskabætur vera raunhæfa. 

„Ég tel að miskabótakrafa í svona tilvikum ætti að vera hærri. Þá er náttúrulega ótalið lögmannskostnaðurinn og ótalinn líkamlegur skaði sem er ekki fram kominn enn þá,“ segir Helgi í samtali við mbl.is. 

Helgi segir þá ferðamenn sem til hans hafa leitað vera í miklu uppnámi vegna atviksins. 

„Það er óhætt að segja það. Þau eru náttúrulega reið og búin að fara í gegnum allan tilfinningaskalann með þetta.“

mbl.is