Icelandair fellir niður allt flug í kvöld

Landgangar hafa verið teknir úr notkun og því verður ekki …
Landgangar hafa verið teknir úr notkun og því verður ekki hægt að hleypa farþegum frá borði vélar Icelandair fyrr en veðurgluggi opnast.

Icelandair hefur fellt niður öll flug í kvöld, alls ellefu flug. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is. Nokkrar flugvélar félagsins standa nú úti á flughlaði Keflavíkurflugvallar án þess að tekist hafi að koma farþegum frá borði vegna veðurs, en landgangar flugstöðvarinnar voru fyrr í kvöld teknir úr notkun.

Ásdís segir að átta vélar félagsins hafi komist til Keflavíkur í kvöld en einni hafi verið snúið til Egilsstaða, eins og mbl.is hefur greint frá. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfesti að í heild væru sex flugvélar úti á hlaðinu og biðu þess að veðrinu slotaði svo hægt væri að ná farþegum frá borði.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is er ekki búist við að hægt verði að komast frá borði fyrr en í fyrsta lagi klukkan tíu í kvöld.

Á vefsíðu Keflavíkurflugvallar stendur að upplýsingar um flug Wizz air sem áttu að vera í kvöld komi síðar í kvöld.

Uppfært kl 21:49: Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að unnið sé að því í samstarfi við Rauða krossinn að setja upp fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu í Keflavík. fyrir farþega sem eru strandaðir. Unnið er að því að finna gistingu fyrir alla farþega og hefur farþegum sem eru fastir á Keflavíkurflugvelli verið afhend matarinneign sem hægt er að nýta þar til þeir komast í næturgistingu. 

Þá segir jafnframt að búið sé að upplýsa alla farþega um röskunina og unnið sé að endurbókun. „Farþegar munu fá senda uppfærða ferðaáætlun í tölvupósti en geta einnig fylgst með „umsjón með bókun“ á heimasíðu Icelandair. Þar eru flugupplýsingar uppfærðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta farþegar jafnframt uppfært netföng og símanúmer þannig að hægt sé að koma skilaboðum til þeirra hratt og örugglega.

Uppfært kl 23:12: Fjöldahjálparmiðstöðin er ekki í Reykjaneshöll eins og kom fram í fyrri tilkynningu Icelandair, heldur í íþróttahúsinu í Keflavík. Hefur fréttin verið leiðrétt samkvæmt því.

mbl.is