Óvissustig vegna snjóflóðahættu

Hér má sjá snjóflóð sem féll í Súðavíkurhlíð á fimmtudag. …
Hér má sjá snjóflóð sem féll í Súðavíkurhlíð á fimmtudag. Glöggir sjá að eina stiku vantar, sem er á kafi í snjó. Ljósmynd/Vegagerðin

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er nú í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Þar hefur snjóað mikið undanfarið og spáð er norðaustanhríð fram á miðvikudag. 

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands, en einna mesti vindurinn og ofankoman í spánum er aðfaranótt mánudags og svo aftur á mánudagskvöld fram á þriðjudag. 

Fyrir er talsverður snjór í fjöllum sem er lagskiptur eftir mismunandi vindáttir og hitabreytingar að undanförnu. Mörg snjóflóð hafa fallið síðustu vikuna, meðal annars á vegi. 

Viðbúið er að nýr snjór safnist hratt í fjöll í hríðinni sem er fram undan og snjóflóðahætta getur skapast. Fylgjast þarf með snjóflóðahættu í byggð en búið er að verja þá íbúabyggð í þéttbýli þar sem fyrst skapast hætta í svona veðri. 

Súðavíkurhlíð var lokað fyrr í dag vegna snjóflóðahættu, en einnig er spáð hríð á mánudag fram á miðvikudag á Norðurlandi. 

mbl.is