Tafir á umferð við Blönduós

Rúta með háskólanema valt út af veginum skammt sunnan við …
Rúta með háskólanema valt út af veginum skammt sunnan við Blönduós. mbl.is/Jón Sigurðsson

Lögreglan á Norðurlandi vestra segir að tafir geti orðið á umferð á hringveginum skammt frá bæn­um Öxl sunn­an við Blönduós þar sem unnið er að því að ná upp rútunni sem valt með hóp háskólanema á föstudaginn.

Mikil vetrarfærð er um mestallt land. Éljagangur hefur verið um sunnan- og suðvestanvert landið og mikil ófærð á Vestfjörðum.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að snjóþekja og hálka sé allt frá Suðurnesjum og Reykjanesbraut austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Jafnframt snjói á þessum slóðum.

Á Vestfjörðum eru margar leiðir annaðhvort ófærar eða hreinlega lokaðar og mestallur mokstur liggur niðri. Enn er varúðarstig vegna hugsanlegra snjóflóða á Súðavíkurhlíð en vegurinn er opinn. Þæfingsfærð er á Innstrandavegi. Lokað er um Þröskulda og vegurinn um Súgandafjörð er ófær og hefur mokstri verið hætt. Ófært er um Klettsháls og stórhríð og lokað er um Flateyrarveg. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð.

Víðast hvar hálka og skafrenningur á Norðausturlandi. Ófært og stórhríð er á Hólaheiði, Hófaskarði og Hálsum.

mbl.is