Tafir urðu á flugi Icelandair

Talsverðar tafir urðu á flugferðum Icelandair í dag vegna veðurs.
Talsverðar tafir urðu á flugferðum Icelandair í dag vegna veðurs. mbl.is/Hari

Tafir urðu á millilandaflugi Icelandair frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðurs. Samkvæmt Ásdísi Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, voru erfiðar aðstæður við Leifsstöð í dag sem ollu því að erfitt reyndist að hlaða og afhlaða vélarnar auk þess sem afísing tók lengri tíma en oft áður í morgun vegna veðurs. 

„Það voru töluverðar seinkanir hjá okkur í dag, bæði á morgunflugunum og svo seinni partinn. Það voru töluvert erfiðar aðstæður á flugvellinum í dag út af veðri,“ segir Ásdís. 

Einu flugi var aflýst, frá Keflavík til Orlando í Bandaríkjunum, en samkvæmt Ásdísi komust þeir farþegar út í dag í gegnum aðrar leiðir. Þá segir Ásdís að síðustu brottfarir Icelandair verði um klukkan hálfníu. 

Samkvæmt Guðjóni Helgasyni, upplýsingafulltrúa Isavia, urðu einhverjar minniháttar tafir á áætlunarflugi annarra flugfélaga frá Keflavíkurflugvelli.  

mbl.is