Erfið færð á Reykjanesbraut

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Lögreglan á Suðurnesjum segir að þung færð sé á Reykjanesbraut þessa stundina og eins innanbæjar í Reykjanesbæ. Þar snjóar líkt og víða á Suðvesturlandi. Lögreglan biður fólk um að fara varlega enda lítið skyggni víða.

Farið er að hvessa á höfuðborgarsvæðinu og lítið skyggni í efri byggðum. Að sögn Halldórs Þórhallssonar, verkstjóra á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar, eru öll tæki úti við að hreinsa götur og stíga en færðin er þung á einhverjum stöðum. Ekki sé ófært en borgi sig að fara varlega í umferðinni. Hann segir að það hafi farið að snjóa um hálfsex í morgun og síðan hefur bætt verulega í vind.

Það er snjór og hálka allt frá Suðurnesjum og Reykjanesbraut austur yfir Hellisheiði og Þrengsli. Þungfært í raun í augnablikinu yfir Hellisheiði vegna mikillar snjókomu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið er eftirfarandi: Austan 5-13 og snjókoma með köflum fram eftir degi. Suðlægari um tíma síðdegis og lægir undir kvöld. Hæg austlæg átt seint í nótt og þurrt, en vaxandi NA-átt á morgun, 15-25 seint annað kvöld, hvassast á Kjalarnesi. Frost 0 til 5 stig, en um frostmark annað kvöld.

mbl.is