Veðrið að versna á Vestfjörðum

Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands.

Veðrið er að versna mjög á Vestfjörðum og að sögn varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði er verið að fara yfir stöðu mála. Hugsanlega þarf að loka einhverjum leiðum en vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn. Þar er aftur á móti varúðarstig vegna hugsanlegra snjóflóða.

Truflanir hafa verið á rafmagni á Vestfjörðum og keyrt á varaafli í Bolungarvík. Í nótt leysti Mjólkárlína út í annað sinn.

Hálka og snjóþekja er víðast hvar á Vestfjörðum og sums staðar þæfingur. Einnig snjóar víða. Ófært er á Gemlufallsheiði. Flughálka er á Innstrandavegi.

Búist er við hríð á Vestfjörðum og Norðurlandi í dag og stormi víða um land seint á morgun. Á Vest­fjörðum tók gul viðvör­un gildi klukk­an 6 í morg­un og gild­ir til klukk­an 17. „Norðaust­an 15-23 m/​s með snjó­komu og skafrenn­ingi og mjög lé­legu skyggni, einkum norðan til. Sam­göngu­trufl­an­ir eru lík­leg­ar.“

Síðan er gul viðvör­un á Vest­fjörðum frá klukk­an 13 á morg­un þangað til klukk­an 19 á þriðju­dag. „NA 20-25 með élj­um og skafrenn­ingi og jafn­vel snjó­komu um tíma norðan ­til. Mikl­ar lík­ur á sam­göngu­trufl­un­um og ekk­ert ferðaveður.“

mbl.is