Wizz air og EasyJet áætla flug fyrir miðnætti

Wizz air áætlar að koma tveimur vélum í loftið frá …
Wizz air áætlar að koma tveimur vélum í loftið frá Keflavíkurflugvelli fyrir miðnætti. Mynd úr safni.

Flugfélögin Wizz air og EasyJet áætla að koma þremur vélum í loftið fyrir miðnætti, en mikil röskun hefur orðið á millilandaflugi nú í kvöld og Icelandair aflýsti meðal annars öllu flugi sínu í kvöld.

Um er að ræða flug Wizz air til London og Riga, en þau voru upphaflega áætluð í loftið á sjöunda og áttunda tímanum í kvöld. Þá er um að ræða flug EasyJet til London, en flug EasyJet til Edinborgar er ekki áætlað fyrr en um hádegi á morgun.

Félögin tvö frestuðu ítrekað í kvöld að taka ákvörðun um flugin, en Isavia þurfti meðal annars að taka landgöngubrýr úr notkun vegna veðursins. Þá hafa farþegar í sex flugvélum þurft að bíða í vélum í margar klukkustundir þar sem ekki þótti öruggt að koma fólkinu úr vélunum.

Nú um klukkan tíu uppfærðu flugfélögin bæði áætlun sína og kemur þar fram að flug Wizz air til London er á áætlun klukkan 23:00, en hin tvö flugin klukkan 23:30.

mbl.is