Um 180 sváfu í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í nótt en alls komu um 500 manns í hjálparmiðstöðina segir Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssviðs hjá Rauða krossinum. Hann segir að fólk hafi ekki verið skelkað en mjög þreytt.
Hann segir að flestir séu sofandi en um fólk er að ræða sem er á leið í flug frá Keflavíkurflugvelli.
Fjöldahjálparmiðstöðin var opnuð um klukkan 21 í gærkvöldi vegna ástandsins á Reykjanesbraut og þeir sem komu þangað fyrst var fólk sem var fast á leiðinni til og frá flugvellinum. Þegar Reykjanesbrautin opnaði að nýju fóru margir af stað leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðið. Þegar leið á kvöldið fóru síðan að koma rútur með fólk ofan úr flugstöð eftir að hægt var að hleypa fólki frá borði flugvéla en margir sátu klukkustundum saman úti í vél þar sem óveðrið kom í veg fyrir að hægt væri að afferma vélarnar.
Að sögn Jóns Brynjars tók fólk ástandinu mjög vel en var eðlilega þreytt. Hann á von á því að fólk fari að fara á fætur því flug virðist vera á áætlun frá Keflavíkurflugvelli.