„Ástin sigrar“

Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína …
Hildur Guðnadóttir tónskáld er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. AFP

„Takk öllsömul fyrir heillaóskirnar og ástina síðustu viku!“ segir Hildur Guðnadóttir tónskáld í færslu á Twitter. 

Rúm vika er síðan Hildur hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og í dag hlaut hún tilnefningu til Óskarsverðlauna í flokki bestu kvikmyndatónlistarinnar. 

Hildur segir í færslunni að hún eigi örlítið erfitt með að gera sér grein fyrir atburðum síðustu daga en segir það yndislegt að fagna með starfsfélögum sínum. Þá er hún afar þakklát fyrir stuðninginn sem hún hefur fengið frá fjölskyldu og vinum síðustu daga. „Ástin sigrar!“ segir Hildur m.a. í færslunni. 

Óskarsverðlaunin verða afhent 9. febrúar í Dolby-leikhúsinu í Hollywood í Los Angeles.  


 

mbl.is

Bloggað um fréttina