Hættuástand skapaðist vegna yfirgefinna bíla

Hættuástand skapaðist þegar fólk tók upp á því að ganga …
Hættuástand skapaðist þegar fólk tók upp á því að ganga upp á flugstöð frá Reykjanesbrautinni í óveðrinu í gær til að freista þess að ná flugi. Ljósmynd/Lögreglan

Starfsfólk Icelandair gerði sitt besta til að ráða fram úr þeirri flóknu stöðu sem myndaðist á Keflavíkurflugvelli í gær vegna aftakaveðurs sem gekk yfir Suðurnesin. Ásdís Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að Icelandair vinni markvisst að því að bæta upplýsingagjöf til farþega en að að alltaf megi gera betur. 

Töluverð óánægja ríkti meðal farþega Icelandair sem áttu bókað flug með flugfélaginu í gær og fullyrti einn farþegi í samtali við blaðamann mbl.is að upplýsingagjöf um aflýst flug væri ábótavant hjá flugfélaginu. Aftakaveður gekk yfir Suðurnesin og var einna verst við flugstöðina. Þriggja kílómetra löng bílaröð myndaðist að Keflavíkurflugvelli um kvöldmatarleytið og var flugi frestað fyrst um sinn áður en því var aflýst. Sumir farþegar brugðu því á það ráð að ganga upp í flugstöð. 

Alltaf hægt að gera betur

„Í gær gerðum við okkar besta til að upplýsa farþega eins mikið og við gátum. Það var staðan en auðvitað er alltaf hægt að gera betur. Við erum stöðugt að skoða það að bæta ferlana hjá okkur og við munum skoða þetta ofan í kjölinn hvernig þetta gekk og læra af ef við getum,“ segir Ásdís Ýr í samtali við mbl.is.  

Veðurfar síðustu daga hefur valdið töluverðu raski á flugsamgöngum og útlit fyrir að það verði áfram raunin næstu daga. „Þetta eru erfiðar aðstæður en það eru allir að reyna að gera sitt besta,“ segir Ásdís.   

Icelanda­ir mun flýta flugi frá Kefla­vík í dag vegna veðurs. Um er að ræða eft­ir­far­andi 10 brott­far­ir frá Kefla­vík og hafa upp­lýs­ing­ar um breyt­ing­arn­ar verið send­ar á alla farþega. Þá hefur tveimur komum, frá Kaupmannahöfn og London, verið aflýst til að koma í veg fyrir að erfitt ástand skapist í flugstöðinni síðdegis. 

Ásdís segir það líklegt að frekara rask verði á flugi næstu daga. „Við erum að meta stöðuna og munum tilkynna um það um leið og ákvarðanir verða teknar.“ 

Þriggja kílómetra löng bílaröð myndaðist að Keflavíkurflugvelli um kvöldmatarleytið og …
Þriggja kílómetra löng bílaröð myndaðist að Keflavíkurflugvelli um kvöldmatarleytið og var flugi frestað fyrst um sinn áður en því var aflýst. Ljósmynd/Lögreglan

Von á öðrum hvelli í kvöld

Sigvaldi Arnar Lárusson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að hættuástand hafi skapast þegar fólk tók upp á því að ganga upp á flugstöð frá Reykjanesbrautinni í óveðrinu í gær til að freista þess að ná flugi. 

„Það var mjög blint þarna og það sem skapaði mestu vandamálin voru bílar sem skildir voru eftir. Snjóruðningstæki áttu erfitt með að athafna sig þarna,“ segir Sigvaldi í samtali við mbl.is. 

Aftakaveðrið kom lögreglunni í opna skjöldu, líkt og forsvarsmenn Isavia og flugfélaganna hafa lýst. „Þetta kom okkur mjög á óvart, en við spiluðum bara eins vel úr þessu og við gátum. Allar björgunarsveitir á svæðinu voru ræstar út og allir lögðust á eitt að gera sitt besta.“  

Mikið var um útafakstur á Suðurnesjum í gærkvöldi að sögn Sigvalda, til að mynda á Sandgerðisvegi, Reykjanesbraut og í Garði. 

Morgunninn hefur verið rólegur hjá lögreglunni á Suðurnesjum en von er á enn einni lægðinni síðdegis og appelsínugul viðvörun hefur verið gefin út á Suðurnesjum. Sigvaldi biður vegfarendur um að ana ekki út í óveðrið og alls ekki skilja bíla eftir á miðjum vegi.



mbl.is