Hafa sinnt tugum verkefna í dag

Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Tugir verkefna hafa ratað inn á borð björgunarsveitanna í dag að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Framan af degi og fram að kvöldmatarleyti var aðallega um að ræða lokanir á vegum fyrir Vegagerðina. En í kvöld hefur hins vegar meðal annars bæst við aðstoð við ferðalanga sem fest hafa bifreiðar sínar og fólk sem hefur þurft að komast til og frá vinnu.

Tilkynningar hafa borist um fok í uppsveitum Árnessýslu og í Þorlákshöfn. Mest hefur verið af verkefnum á Suðurlandi. Ekkert stórt hins vegar, einkum miðað við dagana á undan. Davíð segir að segja megi að það hafi verið reytingur hér og þar um landið.

Samantekið segir Davíð að um hafi verið að ræða nokkra tugi verkefna. Skráð verkefni í kerfi björgunarsveitanna séu á fimmta tug í dag. Þar á meðal séu lokanir á vegum. „Þetta hefur verið rólegra má segja en við höfum átt að venjast síðustu vikur.“

mbl.is