Hildur hlaut verðlaun Critics' Choice

Sigurganga Hildar Guðnadóttur heldur áfram.
Sigurganga Hildar Guðnadóttur heldur áfram. AFP

Tónskáldið Hildur Guðnadóttir vann til verðlauna á Critics Choice-verðlaunaafhendingunni í Los Angeles í gærkvöldi. Hildur hlaut verðlaunin í flokki bestu tónlistar í kvikmynd fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker.

Þetta eru þriðju verðlaunin á þessu ári sem Hildur vinnur en hún fékk Golden Globe-verðlaunin í byrjun árs auk þess sem hún fékk verðlaun á verðlaunahátíð Samtaka tónskálda og textahöfunda. 

Í síðustu viku var Hildur einnig tilnefnd til BAFTA-verðlauna. Í dag kemur svo í ljós hvort hún verði tilnefnd til Óskarsverðlauna en tilnefningarnar verða tilkynntar eftir hádegi. 

Hildur var ekki eina íslenska konan sem var tilnefnd til Critics Choice-verðlaunanna en Heba Þórisdóttir var einnig tilnefnd í flokkinum hár og förðun fyrir kvikmyndina Once Upon a Time... In Hollywood. Hún sigraði þó ekki. 

Kvikmyndin Once Upon a Time.. In Hollywood var þó valin besta kvikmyndin á hátíðinni sem fór fram í gærkvöldi. Leikarinn Joqauin Phoenix vann fyrir hlutverk sitt í Joker og leikkonan Renée Zellweger vann fyrir hlutverk sitt í Judy. 

Lista yfir sigurvegara kvöldsins má lesa á vef CNN.

mbl.is