Hættustigi vegna snjóflóða hefur verið lýst yfir á Ísafirði og kl. 16 í dag voru hús á rýmingarreit númer 9 þar í bæ rýmd. Reiturinn sem um ræðir er undir Seljalandshlíð og þar er einungis iðnaðarhúsnæði, engin íbúðarhús.
Fram kemur á vef Veðurstofu Íslands að veðuraðstæður hafi verið þannig síðustu daga að talsverður snjór hafi safnast í fjöll, snjór sem sé mjög lagskiptur, en óvissustig vegna snjóflóða er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Áfram verður norðaustanhríð og mjög hvasst, sérstaklega í kvöld og á morgun, þriðjudag.
„Búast má við því að snjóflóð falli í þessu veðri og geta þau orðið nokkuð stór,“ segir á ofanflóðabloggsíðu Veðurstofunnar, en þar segir einnig að líklega hafi snjóflóð fallið ofan í lóð Reiðhjallavirkjunar í Syðridal inn af Bolungarvík í hádeginu í dag.
„Orkubú Vestfjarða tilkynnti að þá hafi hækkað í lóninu um 40 cm, og er það þekkt afleiðing snjóflóða úr hlíðinni ofan lónsins. Ekki er vitað um önnur snjóflóð á svæðinu síðasta sólarhringinn en flestir vegir hafa verið lokaðir og lítið skyggni er til fjalla og því er ólíklegt að fréttist af flóðum,“ segir á vef Veðurstofunnar.