Mikil röskun á flugsamgöngum

mbl.is/Eggert

Mikil röskun varð á flugsamgöngum í gærkvöldi og aflýsti Icelandair öllu flugi um tíma. Nánast allt flug frá Keflavíkurflugvelli er á áætlun þennan morguninn en einhverjum flugferðum síðdegis hefur verið flýtt enda veðurspáin slæm þegar líður á daginn.

Flugvél Wizz Air sem lenti á Egilsstaðaflugvelli í gær er væntanlega til Keflavíkur klukkan 11 og flug Icelandair frá Kaupmannahöfn sem átti að lenda klukkan 22:30 í gær lenti klukkan 00:33 í nótt. Flugi Icelandair frá Ósló var aflýst en vélin frá London lenti klukkan 1:46 í nótt.

Flugvél Icelandair kom frá Orlando klukkan 6:17 í morgun en flugi frá Newark-flugvelli við New York var aflýst sem og flugi frá JFK. Hið sama á við um flug félagsins frá Boston, Toronto, Chicago og Washington sem áttu að koma til landsins á sjöunda tímanum í morgun. 

Vél Wizz Air sem átti að fara til London klukkan 18:45 í gærkvöldi fór í loftið klukkan 1:10 í nótt en flug Icelandair til München, Frankfurt, Helsinki, Stokkhólms, Parísar, London, Amsterdam, Dublin, Kaupmannahafnar, Óslóar og Glasgow eru á áætlun. Flugi til Manchester hefur verið flýtt og fer vélin 7:30 í stað 8. Hið sama á við um brottfarir síðdegis en flug til Heathrow við London fer klukkan 15 í stað 16:15, til Chicago fer klukkan 14 í stað 16:45. Hið sama á við um nánast allt flug Icelandair síðdegis.

mbl.is