Óvissustigið gagnvart snjóflóðahættu í byggð á norðanverðum Vestfjörðum á einungis við um örfá hús, aðallega fyrirtæki og einstaka íbúðahús sem standa stök og eru á þekktum svæðum.
„Það eru ekki nema örfá hús sem er verið að fylgjast sérstaklega með núna á þessu óvissustigi,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, spurður út í stöðu mála.
Þar að auki er fylgst með vegum sem eru undir hættulegum hlíðum, með tilliti til snjóflóðahættu, og eru lokanir á þeim stöðum.
Hlynur Hafberg segir fólk halda sig til hlés þegar mikið er um lokanir og bendir hann á að veðurspáin geri ráð fyrir hvössu veðri og úrkomu en spáð er skafrenningi seinna í dag og á morgun. Ekkert flugveður er fyrir vestan.
Spá Veðurstofu Íslands um snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum
Opið er á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og í þéttbýlinu á Vestfjörðum. Einnig eru vegir opnir á sunnanverðum Vestfjörðum.
Hlynur hvetur fólk til að fylgjast vel með veðurspám, vef Vegagerðarinnar og öðrum tilkynningum.