Aftakaveður sem gekk yfir Suðurnes í gærkvöldi kom forsvarsmönnum Isavia og flugfélaganna í opna skjöldu, en spár gerðu ráð fyrir að vindur yrði minni og úrkoman yrði í formi slyddu en ekki snjókomu.
„Þetta kom aftan að okkur og aftan að held ég öllum í rauninni. Þegar líða fór á daginn kom þetta betur í ljós og þá var fjöldi fólks kominn í flugstöðina,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is. Þegar mest var voru um 4.000 manns í flugstöðinni, annars vegar farþegar sem voru á leið úr landi með vélum sem voru ekki að fara og hins vegar farþegar sem voru að koma með vélum en þurftu að bíða úti á hlaði um tíma þar sem vindhraði og ofankoma voru það mikil að ekki var hægt að nota landgangana.
Guðjón segir að heilt á litið hafi gengið vel að leysa úr þeirri stöðu sem skapaðist vegna veðursins. Þegar farþegum var loks hleypt frá borði var Reykjanesbrautin lokuð og því var fjöldi farþega strandaglópar í flugstöðinni. „Okkar starfsfólk var öflugt í að dreifa samlokum, vatni og teppum til fólks og síðan kom Icelandair með vatn frá sér inn í flugstöðina til að tryggja að sem flestir fengju að drekka. Síðan voru starfsmenn frá Rauða krossinum og hjálparsveitum að aðstoða inni í flugstöðinni.“
Starfsemin í flugstöðinni hefur gengið vel í morgun. Veður mun hins vegar versna eftir því sem líða fer á daginn og hefur einhverjum flugferðum síðdegis verið flýtt.
Á sjötta hundrað manns leituðu til fjöldahjálparstöðvar sem opnuð var í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ í nótt. Þetta er 18. fjöldahjálparstöðin sem Rauði krossinn opnar á innan við mánuði, eða frá því mikið óveður gekk yfir landið í desember.
180 manns gistu í miðstöðinni í nótt og er unnið að því þessa stundina að koma fólkinu, sem á flest bókað flug frá landinu, með rútum í flugstöðina.
Fanney Grétarsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins á Suðurnesjum, segir að nóttin og morguninn hafi gengið vel, þrátt fyrir fjölmennið, en fjöldahjálparstöðin er sú stærsta sem Rauði krossinn hefur opnað síðan í Vestmannaeyjagosinu 1973. „Fólkið er þakklátt og Icelandair hefur staðið sig með mikilli prýði,“ segir Fanney í samtali við mbl.is.
Búist er við að búið verði að flytja alla farþega í flugstöðina um hádegisbil.