Starfsmönnum Terra á Ísafirði og Hampiðjunnar hefur verið ráðið frá því að vera í því húsnæði sem er á Grænagarðsreit í Skutulsfirði, samkvæmt ráðgjöf ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands.
Talin er hætta á snjóflóðum í hlíðinni fyrir ofan.
Eins hefur þótt öruggara að hafa sorpmóttökuna í Funa í Skutulsfirði lokaða. Þá var íbúum á sveitabæ í Bolungarvík ráðlagt að dvelja á öruggari stað vegna stöðunnar sem er uppi.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum.
Í gær var sorpmóttakan lokuð, auk þess sem starfsemi Terra og Hampiðjunnar var hætt fyrir klukkan 16.
Staðan á Vestfjörðum er óbreytt. Enn er töluverður vindur og skafrenningur með éljagangi. Skyggni er víðast hvar ekki gott.
Ekki hefur verið hægt að opna marga fjallvegi í umdæminu og enn eru Flateyrarvegur og vegurinn milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokaðir af öryggisástæðum vegna snjóflóðahættu. Ólíklegt er að þessar leiðir opni fyrr en á morgun.
Veðurspáin gerir svo ráð fyrir mun betra veðri á Vestfjörðum á morgun.