Áætlað er að bótakröfur ellefu ferðamanna sem fóru í vélsleðaferð með Mountaineers of Iceland á þriðjudag í síðustu viku nemi á bilinu 600 þúsund til einni milljón króna á mann.
Ellefu ferðamenn hafa leitað til Lilju Margrétar Olsen, lögmanns hjá Kötlu lögmönnum, vegna málsins, þar af eru tvö börn. Áður hafði verið greint frá því að bótakröfur tveggja annarra ferðamanna nemi rúmlega einni milljón á mann.
Lilja segir fjárhæð krafnanna miðast við fordæmi í sams konar máli en er þó ósammála dæmdri bótafjárhæð í þeim dómi og telur bæturnar of lágar. Þar á hún við fyrir þremur árum þegar áströlsk hjón unnu mál gegn Mountaineers of Iceland vegna vélsleðaferðar, þar sem fyrirtækið hafnaði bótaskyldu.
Hjónunum voru dæmdar tæplega 700 þúsund krónur í bætur vegna verulegs gáleysis leiðsögumanna í ferðinni.
Lilja segir að kröfum hafi enn ekki verið beint að fyrirtækinu, enda séu hennar umbjóðendur margir hverjir ókomnir til síns heima, auk þess sé óvarlegt að beina kröfum að fyrirtækinu svo snemma í ferlinu.
„Almennt er það þannig að tjón vegna miska kemur ekki fram degi eða viku frá atburði, heldur þarf fólk að ná áttum áður en afleiðingarnar koma í ljós,“ segir Lilja.
Lögmaðurinn segir enn óljóst hvort málið verði rannsakað sem sakamál en ef svo verði leggi hún fram bótakröfur fyrir umbjóðendur sína þar. Dragist rannsókn á langinn mun einkaréttarkröfum verða beint að fyrirtækinu en Lilja segist þó binda vonir við að ná samningum við fyrirtækið.