„Upplifunin var súrrealísk og mögnuð,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri, um snjóflóðin sem féllu í bænum í gærkvöldi. Rýma þurfti hluta nemendagarða skólans og var Ingibjörg stödd í samkomuhúsinu á Flateyri ásamt 26 nemendum þegar blaðamaður mbl.is náði tali af henni.
Ingibjörg segir að björgunarsveitir á svæðinu hafi haft góða stjórn á atburðarásinni og að andrúmsloftið hafi verið yfirvegað og skipulagt. „Þetta var brjálaður náungakærleikur í brjáluðu veðri,“ segir hún, og bætir við að nemendahópurinn hafi tekið rýmingunni með stóískri ró og fundið fyrir öryggi allan tímann. „Það er svo mikil væntumþykja innan hópsins og þau passa upp á hvert annað.“
Skólahúsnæðið og skólagarðarnir eru niðri á eyrinni, mitt á milli þar sem flóðin tvö féllu og er Ingibjörg þakklát fyrir varnargarðinn og segir hann hafa verið eins og verndarvæng.
Þá hefur nemendahópurinn notið stuðnings Helenu Jónsdóttur, fyrrverandi skólastjóra Lýðháskólans, en hún er klínískur sálfræðingur sem hefur undanfarin fimm ár starfað fyrir alþjóðlegu samtökin Læknar án landamæra, Médecins Sans Frontières (MSF), og hefur unnið fyrir Rauða krossinn. „Við áttum gott spjall við hana,“ segir Ingibjörg.
Móðir stúlkunnar sem bjargað var úr öðru flóðinu starfar við skólann og hefur Ingibjörg verið í góðu sambandi við hana. „Það var kannski stóra sjokkið í okkar hópi. Nemendur senda þeim mæðgum hlýjar kveðjur og strauma. Mesti feginleikinn var þegar við heyrðum að hún er 100% í lagi,“ segir Ingibjörg.
Ingibjörg er ásamt 26 nemendum í samkomuhúsinu á Flateyri en björgunarsveitin mun flytja þau aftur í skólann um leið og veður leyfir. „Það er enn þá ófært og leiðindaveður. Við bíðum átekta, veðrið á að lægja seinni partinn, ætli við vitum ekki meira þá. Þetta er svolítið öðruvísi skóladagur. Við erum fyrst og fremst að einblína á það að halda hópinn. Ætli við munum ekki bara fara að spila og taka gott spjall inn á milli.“