Hvetja fólk til þess að hugsa um nágrannann

Björgunarsveitarmenn og starfsfólk úr áfallateymi Rauða krossins gera sig hér …
Björgunarsveitarmenn og starfsfólk úr áfallateymi Rauða krossins gera sig hér ferðbúin á Reykjavíkurflugvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Dagur er að kvöldi kominn í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík, sem hefur fylgst með aðgerðum allra viðbragðsaðila á Flateyri og Suðureyri í dag og stutt við þá sem hafa verið þar að störfum. Aukinn mannskapur var sendur til Flateyrar í kvöld með þyrlu Landhelgisgæslunnar að beiðni aðgerðastjórnar á norðanverðum Vestfjörðum.

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. Ljósmynd/Almannavarnir

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir daginn hafa gengið vel og engin áföll hafa orðið í störfum björgunarfólks eða annarra á vettvangi. „Það hefur allt bara gengið eins og við var að búast, við erum sátt með daginn,“ segir hann.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hélt af stað frá Reykjavík um kl. 22 í kvöld með aukinn mannskap, björgunarsveitarmenn og fólk frá Rauða krossinum til þess að leysa af aðra sem hafa átt annasaman sólarhring frá því flóðin féllu í gærkvöldi. Önnur slík ferð verður farin á morgun, segir Rögnvaldur.

Aðalverkefnið að opna vegina og hlúa að fólkinu

Rögnvaldur segir er að stefnt sé að því að opna vegi á milli bæjarfélaganna á hamfarasvæðinu á morgun eins og hægt er, til dæmis til Suðureyrar og Þingeyrar. Óvíst er með Flateyrarveg vegna snjóflóðahættu, en staðan á opnun vegarins verður tekin í fyrramálið. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er vitað til þess að snjóflóð hafi fallið á veginn.

Búið er að skipuleggja aðra ferð með viðbragðsaðila frá Reykjavík …
Búið er að skipuleggja aðra ferð með viðbragðsaðila frá Reykjavík til Flateyrar á morgun. Frá Reykjavíkurflugvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Aðalverkefnið núna er að opna þessa vegi sem eru lokaðir og líka að hlúa að fólki og við hvetjum fólk til að hugsa um nágrannann og hlúa hvert að öðru, það er oft besta áfallahjálpin og að vera ekki feimin við að tala um það þegar manni líður illa. Þetta er náttúrulega að ýfa upp sár fyrir mjög marga sem upplifðu snjóflóðin fyrir 25 árum síðan,“ segir Rögnvaldur.

Almannavarnir halda áfram að fylgjast grannt með stöðu mála og verður samhæfingarstöð almannavarna virk út morgundaginn hið minnsta, samkvæmt Rögnvaldi. 

Frá Reykjavíkurflugvelli í kvöld.
Frá Reykjavíkurflugvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Hundrað kíló af mat með þyrlu til Flateyrar

Í stöðuskýrslu frá samhæfingarstöð almannavarna síðdegis í dag kom fram að þyrla Landhelgisgæslunnar hefði verið notuð til þess að flytja hundrað kíló af matvælum til Flateyrar í dag. Rögnvaldur segir að þar hafi meðal annars verið bakkelsi og annað slíkt, sem íbúum í þorpinu var boðið upp á.

„Það var farið í bakarí, því það verður að hvetja fólk til þess að koma saman og bjóða upp á eitthvað til þess að létta á andlegu hliðinni,“ segir Rögnvaldur.

Frá fundi í samhæfingarmiðstöð almannavarna í morgun.
Frá fundi í samhæfingarmiðstöð almannavarna í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annars segir hann að ekki sé hægt að tala um að eiginlegur vöruskortur hafi verið orðinn í þeim byggðarlögum á norðanverðum Vestfjörðum sem hafa verið einangruð síðustu daga vegna veðurs og ófærðar, þótt hillur hafi sumar verið orðnar tómlegar í verslunum. Það mun breytast strax á morgun, þar sem verið er að ryðja veginn um Ísafjarðardjúp og verður líklega fært þar í fyrramálið.

„Þegar landleiðin opnast þá leysist þetta sjálfkrafa með birgðirnar, það eru vörubílar þegar lagðir af stað eða leggja af stað á eftir með vörur.“

mbl.is