Hvítt ský lagðist yfir allan bæinn

Frá aðstæðum á Flateyri í dag.
Frá aðstæðum á Flateyri í dag. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

„Ég sat inni í stofu hjá mér þegar það byrjuðu svakalegar drunur, ólýsanlegt hljóð, það nötraði allt. Þá bara fraus maður í sófanum. Ég hugsaði bara um að komast á neðri hæðina til fjölskyldunnar en gat hins vegar ekki hreyft mig.“

Þannig lýsir björgunarsveitarmaðurinn Egill Ólafsson fyrstu upplifun sinni af því þegar fyrra snjóflóðið féll á Flateyri í gærkvöldi sem lenti á höfninni. „Ég eiginlega trúði því ekki að þetta væri að gerast. Þegar lætin urðu sem mest þá leit ég út og sá bara hvítt ský sem lagðist yfir allan bæinn. Þá byrjuðum við að hringja okkur saman, strákarnir í björgunarsveitinni, og förum af stað. Ég hljóp út götuna til þess að vera viss um að vinur minn sem býr þar væri í lagi. Síðan fórum við niður eftir og sáum að höfnin var í steik.“

Góð tilfinning þegar hann heyrði stúlkuna gráta

Björgunarsveitarmennirnir hafi því næst farið í húsnæði björgunarsveitarinnar. „Ég var síðan að setja snjósleðann í gang þegar konan mín hringdi öskrandi að snjóflóð hefði fallið á húsið fyrir framan okkur. Þannig að við settum bara allt í botn og vorum komnir þarna svona tveimur mínútum eftir að flóðið féll. Við tókum á móti börnunum út um gluggann og fórum svo inn,“ segir hann en unglingsstúlka varð undir flóðinu í húsinu.

„Það var allt smekkfullt af snjó, upp í loft, inni í herberginu og á ganginum, í forstofunni og inn í stofuna. Við komum móðurinni út og byrjuðum svo að moka. Fjórir, fimm náðu að skríða með loftinu. Það voru kannski 50-60 sentimetrar upp í loftið og þeir byrjuðu að moka þar niður. Við hinir fórum fyrir framan og byrjuðum að moka þar inn. Mér hefur held ég aldrei liðið eins vel og þegar ég heyrði stúlkuna gráta,“ segir Egill.

Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Stúlkan hafi verið á tæplega tveggja metra dýpi í 40 mínútur. Félagi hans, sem var einn þeirra sem tróð sér inn með loftinu, hafi lýst því fyrir honum að hann hefði notað snjóflóðastangir og þegar hann hafi fundið fyrir einhverju mjúku hefði allt verið sett á fulla ferð. „Síðan komum við henni út og niður í sundlaug. Þar var komin hjúkrunarkona sem býr hérna og strákur sem er sjúkraliði og er með okkur í björgunarsveitinni.“

Björgunarsveitarmennirnir hafi á meðan farið í það að rýma hús og átta sig betur á stöðunni. Fyrst hafi þeir fengið upplýsingar um að þyrla Landhelgisgæslunnar væri farin í loftið og undirbúningur verið hafinn til þess að hún gæti lent á staðnum. Síðan hafi þau skilaboð hins vegar borist að þyrlan væri ekki farin í loftið. Þá hafi verið farið í að rýma höfnina til þess að geta tekið við björgunarsveitarfólki um hana.

Varnargarðurinn bæði bjargaði og brást

„Varnargarðurinn bjargaði okkur en manni finnst hann hafa svikið okkur á sama tíma,“ segir Egill. „Fólk er líka mjög brennt eftir orð Veðurstofunnar á mánudaginn að ekki þyrfti að rýma neitt þar sem búið væri að verja alla byggð. Það situr líka í manni.“ Búið sé að þurrka út allt lífsviðurværi fólks sem vinnur við sjávarútveg í einu vetfangi. Sex bátar af sjö hafi sokkið og höfnin stórskemmd og full af snjó og klaka.

„Það hefði þurft að færa endana á garðinum um svona 30-40 metra til austurs þegar hann var byggður. Ef það hefði verið hlustað á það sem fólk var að segja á þeim tíma. Þá hefði höfnin sloppið,“ segir Egill. Ekki sé ætlunin að ásaka neinn en upplifunin sé sem fyrr segir að varnargarðurinn hafi bjargað þorpinu en á sama tíma brugðist.

mbl.is