Lýsir upp dimman mánuð að enginn hafi farist

Flateyrarkirkja eftir hamfarir næturinnar.
Flateyrarkirkja eftir hamfarir næturinnar. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Það er Guðsblessun að eiga jafn öflugar björgunarsveitir og aðra vaska viðbragsaðila sem raun ber vitni við jafn krefjandi aðstæður. Það lýsti upp annars dimman janúarmánuð að enginn hafi farist í þessum hamförum.

Þetta skrifar Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í kveðju vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði í gærkvöldi. Bænir hennar, hugur og hjarta eru hjá Vestfirðingum og segir hún þakkarvert að stúlkan sem lenti í flóðinu skyldi bjargast. „Sú gleði lífgar upp á daufa daga.

Ljóst er að mikið eignatjón hefur orðið og fram undan uppbygging og endurheimt í samfélaginu. Slíkt þekkja Flateyringar vel og hafa sannað að þolgæði þeirra, styrkur og samheldni mun lýsa upp framtíð þorpsins og tryggja að líf, gleði og starf tapist aldrei í þorpinu.

Kveðja biskups í heild sinni:

Bænir mínar, hugur og hjarta eru hjá Flateyringum, Súgfirðingum og öðrum Vestfirðingum.

Það er Guðsblessun að eiga jafn öflugar björgunarsveitir og aðra vaska viðbragsaðila sem raun ber vitni við jafn krefjandi aðstæður. Það lýsti upp annars dimman janúarmánuð að enginn hafi farist í þessum hamförum.

Það er þakkarvert að stúlkan sem lenti í flóðinu skyldi bjargast. Sú gleði lífgar upp á daufa daga.

Ljóst er að mikið eignatjón hefur orðið og framundan uppbygging og endurheimt í samfélaginu. Slíkt þekkja Flateyringar vel og hafa sannað að þolgæði þeirra, styrkur og samheldni mun lýsa upp framtíð þorpsins og tryggja að líf, gleði og starf tapist aldrei í þorpinu.

Þær skelfilegu hamfarir í Súðavík og á Flateyri árið 1995 hvíla enn þungt í minningu okkar allra og ýfast upp við atburð eins og þennan.

Starfsfólk kirkjunnar er til staðar til að gæta, hugga og hefja endurreisn með íbúum.

Það er hafið, fjöllin og fólkið – það veit ég sem Vestfirðingur.

Guð geymi ykkur og varðveiti í ykkar baráttu.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands

mbl.is