Sumir treysta sér ekki til að vera heima

Frá fjöldahjálparstöðinni á Flateyri.
Frá fjöldahjálparstöðinni á Flateyri. Ljósmynd/Steinunn Ása Sigurðardóttir

„Þetta hefur verið frekar skrítinn tími,“ segir Steinunn Ása Sigurðardóttir, íbúi á Flateyri, við mbl.is. Steinunn dvelur ásamt fleirum í fjöldahjálparstöðinni sem komið var upp í bænum í kjölfar tveggja stórra snjóflóða sem féllu á Flateyri í gærkvöldi.

Hún segir að slatti af fólki sé í fjöldahjálparstöðinni og stór hluti íbúa bæjarins sé saman kominn þar. „Flestir eru hérna til að finna samveruna en sumir treysta sér kannski ekki til að vera heima hjá sér,“ segir Steinunn.

Sjálf heyrði hún ekki þegar fyrra flóðið féll en hún var með vinum sínum. Einn þeirra var í björgunarsveit bæjarins og fékk skilaboð um að hraða sér á vettvang. „Síðan féll seinna flóðið og þá söfnuðust við nokkur saman og fylgdust með fréttum fram á nótt,“ segir Steinunn sem kveðst ekki hafa áttað sig á alvarleika náttúruhamfaranna fyrr en hún frétti af því að flóðið hefði fallið á hús.

„Ég hélt fyrst að allt hefði farið fram hjá byggð út af varnargarðinum. Ég leiddi ekki hugann að því að þetta gæti farið yfir garðinn, ekki fyrr en núna. Það er gott að þetta fór ekki verr.“

Það er gríðarlega snjóþungt á Flateyri.
Það er gríðarlega snjóþungt á Flateyri. Ljósmynd/Steinunn Ása Sigurðardóttir

Tekur meira á þá sem upplifðu flóðið 1995

Steinunn er aðflutt en þetta er annar veturinn sem hún býr á Flateyri. Hún segir flesta bæjarbúa rólega þrátt fyrir flóðin.

„Sem utanaðkomandi þá sé ég að þetta tekur meira á þá sem upplifðu flóðin 1995 eða áttu aðstandendur sem lentu í þeim. Það tekur á að sjá það,“ segir Steinunn og bætir við að augljóslega rífi flóðin núna upp gömul sár hjá einhverjum íbúum bæjarins.

„Maður finnur samstöðuna hérna út í gegn.“

Steinunn segist ekki alveg vita nákvæmlega hvert hættustigið sé í bænum núna. „Það er enginn í efstu húsunum í bænum,“ segir Steinunn og bætir við að enginn hafi sagt að það sé ekki óhætt að vera þar; í húsunum í Ólafstúni og Goðatúni.

Steinunn ætlar sér að dvelja áfram í fjöldahjálparstöðinni í dag þangað sem hún segir að fullt af björgunarfólki, áfallateymi, lögregluþjónum og sérfræðingum frá Veðurstofunni sé komið.

„Ég veit að við erum í öruggum höndum hérna.“

mbl.is