Sýnir fólkinu stuðning í verki

Þessi mynd var tekin frá varðskipinu Þór fyrir utan Flateyri.
Þessi mynd var tekin frá varðskipinu Þór fyrir utan Flateyri. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Verið er að senda fyrsta léttabátinn í land á Flateyri frá varðskipinu Þór. „Ég er að hoppa í stígvélin og við erum að græja okkur,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Hann hefur verið um borð í skipinu síðan um klukkan 8.30 í morgun, eða í um fimm og hálfa klukkustund. Vegna óveðurs hafa menn sætt færis á að ferja fólk og birgðir í land.

„Ef maður horfir út um gluggann þá er skyggnið að lagast. Það virðist vera að draga úr vindi og það er orðið töluvert bjartara yfir. Ég held að það hafi verið rétt metið hjá skipstjóranum að bíða þetta af okkur þennan klukkutíma. Eins er ölduhæðin mikil og stórstreymt við bryggjuna þannig að það var ekki skynsamlegt að fara út í þetta,“ greinir Guðmundur frá.

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Verður á hliðarlínunni 

Á Flateyri ætlar bæjarstjórinn að vera á hliðarlínunni og láta fagfólkið ganga fyrir. „Mitt hlutverk er að sýna fólkinu stuðning í verki og reyna að átta mig á umfangi og aðstæðum.“

Hann segir einnig mikilvægt að veita viðbragðsaðilum, þar á meðal þeim sem hafa sinnt áfallahjálp, stuðning því allt sé þetta keðjuverkandi.

Guðmundur Gunnarsson.
Guðmundur Gunnarsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is