„Því miður er veðurútlit ekki sérstaklega gott“

Árni friðriksson mun ásamt öðrum skipum hefja leit að loðnu …
Árni friðriksson mun ásamt öðrum skipum hefja leit að loðnu í kvöld en ekki er mikil bjartsýni hvað loðnuvertíð varðar. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Árni friðriks­son, rann­sókna­skip Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, kom til Nes­kaupstaðar í morg­un, en þangað er einnig kom­inn Há­kon EA auk græn­lenska skips­ins Pol­ar Amar­oq, að því er fram kem­ur á heimasíðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

Skip­in þrjú, ásamt Bjarna Ólafs­syni AK og Ásgrími Hall­dórs­syni SF, stefna á að halda í loðnu­leiðang­ur í kvöld, en um tíma var tví­sýnt með hann eða þar til ný­verið þegar náðist sam­komu­lag milli Haf­rann­sókna­stofn­un­ar og út­gerðanna.

„Því miður er veðurút­lit ekki sér­stak­lega gott en það er veður­gluggi næstu daga sem þarf að nýta vel. Því miður rík­ir ekki mik­il bjart­sýni um loðnu­vertíð en það er aldrei að vita. Loðnan hef­ur oft komið mönn­um á óvart,“ er haft eft­ir Birki Bárðason, leiðang­urs­stjóra, á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

„Við þurf­um að kvarða mæla í Árna Friðriks­syni og Há­koni  en mæl­ar Pol­ar Amar­oq hafa þegar verið kvarðaðir. Í kvörðun mæl­anna felst að þeir séu stillt­ir þannig að þeir mæli all­ir eins. Bjarni Ólafs­son og Ásgrím­ur Hall­dórs­son koma með sem leit­ar­skip en þau eru ekki með kvarðaða mæla. Það eru því fimm skip sem hefja mæl­ing­ar og leit í kvöld eða nótt. Við ger­um ráð fyr­ir að byrja út af Litla­dýpi og leita norður með land­grunns­brún­inni og einnig á land­grunn­in­um. Sam­an munu skip­in leita út af Aust­fjörðum og Norðaust­ur­landi í fyrstu at­rennu. Um borð í bæði Pol­ar Amar­oq og Há­koni verða þrír starfs­menn frá Haf­rann­sókna­stofn­un,“ út­skýr­ir Birk­ir.

mbl.is