Þyrlan flytur þrjá frá Flateyri

Frá Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum þegar áhöfnin á TF-GRO undirbjó …
Frá Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum þegar áhöfnin á TF-GRO undirbjó sig fyrir útkallið. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var á þriðja tímanum í dag kölluð út í sjúkraflug vestur á Flateyri og Ísafjörð. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en samkvæmt samtali við Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúa LHG, tengjast sjúkraflutningarnir snjóflóðunum ekki með beinum hætti. 

„Allt að þrír verða sóttir til Flateyrar og komið undir læknishendur á Ísafirði en vegna ófærðar síðustu daga hafa þeir ekki komist frá bænum. Jafnframt verður einn sóttur til Ísafjarðar og fluttur á sjúkrahús í Reykjavík,“ segir í tilkynningu.

Faðir stúlkunnar sem lenti í flóðinu fær far 

Þyrlan flytur sömuleiðis búnað fyrir björgunarsveitir og almannavarnir á Flateyri. Þá er faðir stúlkunnar sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri í gær einnig um borð en honum var boðið að fljúga með þyrlunni vestur á Ísafjörð til að geta hitt dóttur sína. TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan þrjú í dag og er gert ráð fyrir að þyrlan verði komin á Flateyri á fimmta tímanum.

mbl.is