Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eru á meðal þeirra sem eru komin á Flateyri eftir að hafa flogi þangað með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Fyrir vestan munu þau kynna sér aðstæður og ræða við íbúa í bænum eftir snjóflóðin sem féllu þar á þriðjudagskvöldið.
Flug þyrlunnar á Vestfirði var það fjórða í röðinni og verður eitt af verkefnum hennar að flytja mannskap og búnað milli Ísafjarðar og Flateyrar, að því er segir í tilkynningu.
Forsvarsmenn helstu viðbragðsaðila voru einnig um borð í þyrlunni ásamt framkvæmdastjóra Náttúruhamfaratrygginga og fulltrúa Rauða krossins sem mun aðstoða við skipulagningu vegna stuðnings við íbúa.
TF-GRO, þyrla Gæslunnar, fór síðdegis í gær í sjúkraflug til Flateyrar og á Ísafjörð auk þess sem hún flutti björgunarsveitarfólk, sérfræðinga, búnað og vistir síðar um kvöldið. Í morgun fór áhöfnin á TF-GRO vestur með fulltrúa Umhverfisstofnunar og Veðurstofunnar.
Til að gera þyrlunni betur kleift að lenda við bensínstöðina á Flateyri voru tveir ljósastaurar felldir í gær til að búa til ákjósanlegan lendingarstað fyrir þyrluna.
Þyrlan verður til taks fyrir vestan næstu klukkutímana en TF-GRO lenti á Flateyri klukkan 15.