„Það er ljóst að það þarf augljóslega að yfirfara hættumatið eftir svona viðburð og það verður auðvitað gert,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún er spurð um hvað ríkisstjórnin hyggist gera varðandi snjóflóðavarnir eftir flóðin sem féllu á Flateyri og Suðureyri á þriðjudagskvöld.
Katrín, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra flugu til Flateyrar í dag með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þaðan fóru þau til Suðureyrar og Ísafjarðar. Katrín segir líklegt að flóðið á Flateyri hafi verið stærra en mannskæða flóðið sem féll á bæinn 1995.
„Hvað varðar ofanflóðasjóð almennt og snjóflóðavarnir var það áætlunin að ljúka þeirri uppbyggingu 2010. Það er ljóst að það tókst ekki og mun ekki takast að ljúka henni fyrir 2020 eins og næsta takmark gerði ráð fyrir,“ segir Katrín.
„Auðvitað er sláandi að sjá þetta tjón en um leið er svo mikil samheldni í samfélaginu. Allir eru bara að styðja hver annan og moka frá húsum. Það var líka ótrúlega fallegt.“