Nóttin var tíðindalítil hjá samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík, sem hefur fylgst með aðgerðum allra viðbragðsaðila á Flateyri og Suðureyri frá því snjóflóð féllu þar á þriðjudagskvöld og stutt við þá sem hafa verið þar að störfum.
„Við gátum aðeins hvílt fólk en nú erum að fara að taka við deginum og taka stöðuna hvernig málin þróast í dag,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
Búið er að aflýsa hættustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum en neyðarstig almannavarna er enn í gilldi auk þess sem óvissustig almannavarna er í gildi vegna snjóflóðahættu.
Fært er á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar svo hægt er að koma vistum vestur. Þá er búið að opna veginn til Suðureyrar og einnig er fært til Þingeyrar. Flateyrarvegur er hins vegar enn lokaður vegna snjóflóðahættu og segir Rögnvaldur mestu óvissuna ríkja með hann. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er ekki vitað til þess að snjóflóð hafi fallið á veginn.
Aukinn mannskapur var sendur til Flateyrar í gærkvöld með þyrlu Landhelgisgæslunnar að beiðni aðgerðastjórnar á norðanverðum Vestfjörðum. Þá er varðskipið Þór enn til taks í Önundarfirði ef þörf er á.
Samhæfingarstjórnstöðin verður virk á meðan einhvers konar neyðar- eða óvissustig verður í gildi. „Ef við lækkum stigið og fækkum mannskap frá okkur á svæðinu getum við dregið úr starfsemi hér og fært yfir á bakvakt en á meðan staðan er svona erum við með virkjun,“ segir Rögnvaldur.