Tuttugu björgunarsveitarmenn að störfum á Flateyri

Aðgerðum á Suðureyri er lokið en björgunarsveitamenn vinna nú að …
Aðgerðum á Suðureyri er lokið en björgunarsveitamenn vinna nú að verðmætabjörgun á Flateyri. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Rúmlega 20 björgunarsveitarmenn eru að störfum á Flateyri við verðmætabjörgun og aðstoð við íbúa. Helstu verkefni þeirra er björgun verðmæta í húsi sem varð fyrir flóðinu og snjómokstur. Átta björgunarsveitarmenn voru sendir til Flateyrar í gærkvöldi til að aðstoða.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu frá samhæfingarstöð almannavarna vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði.

Verkefnum björgunarsveita á Suðureyri lauk seint í gær þegar björgunarsveitarfólk aðstoðaði íbúa að komast til síns heima eftir að rýmingu var aflétt.

Meta umfang mengunar í höfninni

Fulltrúi Umhverfisstofnunar fór vestur í morgun til að meta umfang mengunar í Flateyrarhöfn. Tveir gámar, 20 og 40 feta langir sem talið var að hefðu farið í sjóinn, fundust á bryggjunni undir flóðinu. Þeir innihéldu meðal annars rafgeyma, kajaka og björgunarbáta.

Þá fannst 4.800 lítra olíutankur sem er nú kominn á land. Hann var talinn tómur en nú er er talið að í honum gætu verið 200 lítrar. Úrgangsolíutankur er enn þá ófundinn en líklegt þykir að hann sé uppi á bryggju undir flóðinu þar sem gámarnir fundust.

Flotbryggjan á Flateyri ekki tryggð

Hafnarstjórn í samvinnu við Umhverfisstofnun, Landhelgisgæslu og aðgerðastjórn mun í framhaldinu fara til Flateyrar og meta aðstæður og skipuleggja aðgerðir í framhaldinu.

Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur hafið könnun á vátryggingavernd eigna sem skemmdust í flóðinu. Fljótt á litið virðist vátryggingavernd á skemmdum eignum vera nokkuð góð að frátalinni flotbryggjunni á Flateyri.

mbl.is