Varðskipið Þór er komið að bryggju á Flateyri, en til þess þurfti að senda léttbát með dýptarmæli sem skannaði höfnina til að athuga hvort einhver fyrirstaða væri í höfninni. Áhöfnin hefur aðstoðað við ýmis verkefni undanfarinn sólarhring, en í morgun lýsti áhöfnin meðal annars með ljóskösturum upp í hlíðina til að kanna snjóalög fyrir Vegagerðina.
Þá hefur áhöfn Þórs einnig aðstoðað við flutning mannskaps, búnaðar og vista á milli staða auk þess að aðstoða við að ná upp olíutanki sem lá utan í varnargarðinum. Var tankurinn hífður upp á bryggju.
Von er á sérfræðingi frá Umhverfisstofnun ásamt hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar um borð í skipið vegna undirbúnings við hreinsun hafnarinnar á morgun.