Björgunarsveitarmenn fóru í leikskólann Grænagarð á Flateyri í morgun og mokuðu í burtu snjó til að börnin gætu leikið sér úti.
Bæði leikskólinn og grunnskóli Önundarfjarðar voru opnaðir á nýjan leik í morgun eftir að snjóflóðið gekk yfir á þriðjudagskvöld. Skipulag dagsins í grunnskólanum átti að taka mið af atburðum síðustu daga og áttu m.a. að koma í skólann sérfræðingar úr áfallateymi og prestur.
„Það var frábært að fá þá hingað,“ segir Joanna Majewska, deildarstjóri Grænagarðs. Þeir mokuðu snjó úr göngum við leikskólann til að hægt væri að komast á leikvöllinn og mokuðu einnig snjó frá skúr þar sem leiktæki eru geymd. Einnig mokuðu þeir frá vegasaltinu.
Að sögn Joanna voru björgunarsveitarmennirnir í um 20 til 30 mínútur að störfum en þurftu svo að drífa sig að sinna öðrum verkefnum.
„Þetta er með ólíkindum. Það er engan bilbug á þeim að finna,“ sagði Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, um björgunarsveitina þegar blaðamaður ræddi við hann í morgun.
Magnús Einar Magnússonar, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar, segir að 21 björgunarsveitarmaður hafi verið að störfum í dag, þar af sex sem komu til hjálpar frá Bolungarvík. „Það var mjög flott að fá þá,“ segir hann.
Auk þess að moka upp snjó við leikskólann hafa þeir farið í ýmis verkefni, alls um 10 til 15 talsins. Mikilli rigningu er spáð á sunnudaginn og hafa menn áhyggjur af snjóþyngslum á þökum. Einnig hafa björgunarsveitarmenn skafið snjó frá gluggum til að hleypa dagsbirtunni inn „upp á hugarástandið“.
Til stendur að breiða yfir húsið sem lenti í snjóflóðinu til að koma í veg fyrir leka og ganga betur frá því. Það verður líklega gert í fyrramálið. Jafnframt eru björgunaraðilar reiðubúnir til að aðstoða við hreinsun Flateyrarhafnar ef óskað verður eftir því.
Björgunarsveitarmenn verða að störfum á svæðinu næstu daga og er hægt að hafa samband við þá og óska eftir aðstoð á Facebook-síðu Sæbjargar.