Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ og lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafa boðað til íbúafunda í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og Suðureyri á mánudagskvöldið.
Íbúafundurinn á Flateyri verður haldinn á mánudag klukkan 17:00 í Félagsbæ og íbúafundurinn á Suðureyri verður klukkan 20:00 á mánudagskvöldið í félagsheimilinu í bænum.
Fram kemur á vef Ísafjarðarbæjar að Rögnvaldur Ólafsson frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra verður fundarstjóri.
Framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands og sérfræðingur frá Veðurstofu Íslands fara yfir málin auk þess sem áfallahjálp verður skipulögð.