Þykjast vera Hildur Guðnadóttir á netinu

Hildur Guðnadóttir.
Hildur Guðnadóttir. AFP

Nafn tónskáldsins Hildar Guðnadóttur er á allra vörum eftir að hún fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna í síðustu viku fyrir tónlistina í Jóker. Frægðinni fylgja ýmsir gallar en nú er búið að búa til netfang og Twitter-aðgang undir nafni Hildar. Varar Hildur við aðilum sem þykjast vera hún á netinu. 

Hildur bendir á það á samfélagsmiðlum sínum að netfangið Hildurgudnadottir@gmail.com sé ekki hennar netfang. Einu upplýsingarnar um hvernig má ná í hana eru á heimasíðu hennar. Einnig bendir hún á að einu samfélagsmiðlarnir sem hún notast við eru opinberir samfélagsmiðlar hennar. Biður hún fólk að tilkynna þá aðganga sem eru ekki hennar. Er hún auk þess að vinna í að fá opinbera staðfestingu á samfélagsmiðlum hennar svo mál af þessu tagi valdi ekki ruglingi. 



mbl.is