Krefjast rannsóknar á söluvirði sjávarafurða

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, undirritar tilkynningu þar sem skorað …
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, undirritar tilkynningu þar sem skorað er á stjórnvöld að rannsaka söluvirði sjávarafurða. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Samninganefnd Sjómannasambands Íslands skorar á stjórnvöld að láta fara fram óháða rannsókn á söluvirði afurða í íslenskum sjávarútvegi,“ segir í fréttatilkynningu frá Sjómannasambandinu. Þar segir jafnframt að gera megi ráð fyrir því að milliverðlagning sjávarfangs sé mjög algeng.

Sjómannafélag Íslands hefur einnig farið fram á rannsókn á söluvirði sjávarfangs, einkum verðmyndun makríls á árunum 2012 til 2018.

„Ætla má að íslenskt samfélag verði af gríðarlegum fjármunum ef rétt reynist. Það er því skýlaus krafa samninganefndar Sjómannasambands Íslands að fram fari vönduð, óháð opinber rannsókn á endanlegu söluvirði útflutnings sjávarafurða og hvað af raunverulegum verðmætum skilar sér til Íslands.“

Þá er einnig áréttað að verkalýðsfélagið hafi áhyggjur af endurvigtunarleyfum fiskvinnsluhafa í ljósi þess að „ítrekað hafi verið sýnt fram á mismun á ísprósentu,“ fullyrðir félagið og segir mjög mikinn mun vera íshlutfalli eftir því sem vigtun er undir eftirliti Fiskistofu eða ekki.

„Í þessum málum báðum eru gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir bæði sjómenn og þjóðfélagið í heild sinni,“ segir að lokum. Undir tilkynninguna ritar Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.

mbl.is