Reynt að múta rannsakanda í Namibíu

Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar namibísku, vildi ekki gefa upp fyrir …
Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar namibísku, vildi ekki gefa upp fyrir hvern sexmenninganna sá sem reyndi að múta rannsóknarlögreglumanninum hefði verið að vinna. Skjáskot af YouTube

Spill­ing­ar­lög­regl­an í Namib­íu hef­ur hand­tekið ein­stak­ling sem sagður er hafa reynt að hjálpa ein­um af sex­menn­ing­un­um sem sitja í gæslu­v­arðhaldi vegna Sam­herja­skjal­anna fyr­ir að hindra fram­gang rétt­vís­inn­ar með því að múta ein­um rann­sókn­ar­lög­reglu­manni og fá hann til þess að fjar­lægja upp­lýs­ing­ar um ákveðin greiðslu­kort úr rann­sókn­ar­gögn­um spill­ing­ar­lög­regl­unn­ar.

Þetta staðfest­ir Paul­us Noa, stjórn­andi spill­ing­ar­lög­regl­unn­ar, við namib­íska frétta­blaðið In­form­anté í dag. Munu rann­sókn­ar­lög­reglu­mann­in­um hafa verið boðnar tvær millj­ón­ir namib­ískra dala, jafn­v­irði 17 millj­óna ís­lenskra króna, fyr­ir að láta þetta ger­ast.

Noa seg­ir við In­form­anté að ef rann­sókn­ar­lög­reglumaður­inn hefði fjar­lægt greiðslu­kort­in úr máls­gögn­un­um hefði sá sem á þau fengið aðgang að því fé sem er á viðhang­andi banka­reikn­ing­um.

Hann sagði að á þessu stigi máls­ins vildi spill­ing­ar­lög­regl­an hvorki nafn­greina þann sem hand­tek­inn hef­ur verið, né upp­lýsa um hvern sex­menn­ing­anna sá hand­tekni var að vinna fyr­ir.

Þessu tengt rifjar In­form­anté upp í um­fjöll­un sinni að í byrj­un des­em­ber hafi maður sem starfaði fyr­ir Sacky Shang­hala, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra Namib­íu, verið hand­tek­inn fyr­ir að fjar­lægja gögn af heim­ili ráðherr­ans. Sú rann­sókn er enn í gangi.

mbl.is