Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í tvígang á Alþingi í dag hvort hann teldi árás Bandaríkjamanna á bílalest í Írak í síðasta mánuði, hvar íranski herforinginn Qasem Soleimani féll, lögmæta.
Guðlaugur Þór svaraði fyrirspurninni ekki beint en sagði stefnu íslenskra stjórnvalda í samræmi við nálgun vina- og bandalagsþjóða Íslands. Einkum hinna Norðurlandanna sem og annarra Evrópuríkja. Sagðist hann ekki bera blak af Soleimani.
Þegar Logi ítrekaði spurningu sína sagði ráðherrann að Ísland hefði ekki tekið neina sérstaka afstöðu til lögmætis árásarinnar að öðru leyti en því að íslensk stjórnvöld hefðu hvatt til stillingar. Íranir hefðu verið með miklar ögranir svo ekki væri meira sagt.