Norræna ráðherranefndin hefur ákveðið að veita styrk af fjárlögum nefndarinnar til rannsóknar á launakerfi í sjávarútvegi í norrænu ríkjunum og gagnkvæmum áhrifum þess á stjórnkerfi fiskveiða og sjálfbærni, að því er segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Stefnt er að því að niðurstöður verkefnisins verði kynntar á norrænni fiskimálaráðstefnu í Færeyjum næsta haust.
Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gerði grein fyrir verkefninu á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Þá segir í tilkynningunni að í „verkefninu verður leitast við að greina og lýsa launakerfi í sjávarútvegi í norrænu ríkjunum, þróun þess og skiptingu fiskveiðirentu milli sjómanna, eigenda skipa og handhafa aflakvóta.“
Það var síðastliðið haust sem ráðuneytið, að frumkvæði Kristján Þórs, tók til umræðu á vettvangi norræns samstarfs í fiskimálum hvort framkvæma mætti samanburð á kjörum og launakerfum sjómanna í hinum norrænu ríkjum, sérstaklega með tilliti til umfjöllunar síðastliðið haust um verðmun á uppsjávarafla hér á landi og í Noregi.
Hugveitan Nordic Marine Think Tank ber ábyrgð á verkefninu en verkefnisstjóri er Carl-Christian Schmidt, ráðgjafi og fv. skrifstofustjóri sjávarútvegs- og fiskeldisskrifstofu OECD. Þátttakendur í verkefninu er fræðimenn í Danmörku, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Noregi, segir í fréttatilkynningunni.
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að leiða í ljós skýringar á þeim verðmun sem hefur verið í umræðunni enda hefur sú umræða einkennst af tortryggni um kjör sjómanna. Það er mikill styrkur fyrir þetta verkefni að öll norrænu ríkin koma að því og því verður hægt að bera saman upplýsingar milli landa,“ segir Kristján Þór.