Namibískur lögregluþjónn á fimmtugsaldri hefur verið handtekinn af namibísku spillingarlögreglunni ACC, í tengslum við tilraun til mútugreiðslna sem leiddu til handtöku annars manns í vikunni.
Reynt var að múta rannsóknarlögreglumanni ACC til þess að láta af hendi greiðslukort tveggja af þeim sex sem setið hafa í varðhaldi frá því fyrir jól. Namibíski fjölmiðillinn Namibian greinir frá þessu í dag, en í frétt miðilsins er tiltekið að sá handtekni sé í varaliði lögreglu og ekki í fullu starfi sem lögreglumaður.
Einn var handtekinn vegna þessa máls á þriðjudaginn og hafa því í heildina þrír verið handteknir vegna tilrauna sexmenninganna, sem setið hafa í varðhaldi í Namibíu frá því í desember, til þess að reyna að fela slóð sína.
Auk þeirra tveggja sem handteknir hafa verið í vikunni var starfsmaður Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins handtekinn um miðjan desember fyrir tilraun til þess að fjarlægja gögn af heimili yfirmanns síns.