Gat á perustefni Polar Amaroq við loðnuleit

Þó nokkur bræla var þegar skip voru í leit að …
Þó nokkur bræla var þegar skip voru í leit að loðnu. Ljósmynd/Geir Zoëga

Grænlenska skipið Polar Amaroq tók þátt í loðnuleit Hafrannsóknastofnunar, en veður hefur truflað leiðangurinn nokkuð. Talsvert var um hafís og lenti skipið í ísspöng og rakst á ísjaka, það var ekki fyrr en komið var til hafnar á Ísafirði sem uppgötvaðist að gat hefði komið á perustefni skipsins, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

„Veður truflaði verulega loðnuleitina og það sem meira var að við lentum inn í ísspöng 10 mílur norður af Hala og fengum gat á stefnisperuna á bátnum. Ísinn sást illa í radar en þetta voru smájakar sem lágu í yfirborðinu. Við keyrðum á einhverja jaka og vorum síðan heilan klukkutíma að koma okkur út úr ísspönginni. Þegar við vorum komnir inn á Ísafjörð uppgötvuðum við að það hefði komið gat á stefnisperu bátsins vegna áreksturs við ísjaka,“ er haft eftir Geir Zoëga, skipstjóra Polar Amaroq.

Polar Amaroq í ís 10 mílur norður af Hala.
Polar Amaroq í ís 10 mílur norður af Hala. Ljósmynd/Geir Zoëga

Hann segir atvikið ekki alvarlegt þar sem gatið hafi opnað leið fyrir sjó inn í sjótank í stefni skipsins. „Nú er verið að loka gatinu þannig að þetta verður allt í góðu lagi. Við erum tilbúnir að taka þátt í öðrum loðnuleitarleiðangri ef á þarf að halda en fyrirhugað er að fara í slíkan leiðangur snemma í febrúar. Ég hef tröllatrú á að niðurstaða hans verði jákvæðari. Að mínu mati ætti að gefa út einhvern smákvóta til þess að öll loðnuskip haldi til veiða og leiti.“

Geir kveðst fullur af bjartsýni enda sé loðna víða, að sögn hans. „Það er loðna á 170 sjómílna belti en hún er ekki þétt og því erfitt að mæla hana. Ég hef tröllatrú á að það verði loðnuvertíð.“

mbl.is