Lögreglumaður í Maryland-ríki hefur verið ákærður fyrir morð en hann skaut mann til bana á mánudagskvöldið. Maðurinn var í járnum inni í lögreglubíl þegar Michael Owen skaut hann sjö sinnum.
Owen, sem hefur verið í lögreglunni í tíu ár, var ásamt öðrum lögreglumanni sendur í úthverfi Washington, Temple Hills, vegna þess að ökumaður, sem var grunaður um að vera undir áhrifum vímuefna, hafði ekið á nokkra bíla.
Ökumaðurinn, William Green, 43 ára tveggja barna faðir, var handtekinn á áttunda tímanum, handjárnaður með hendur fyrir aftan bak og gert að setjast í framsæti lögreglubílsins á meðan beðið var eftir sérfræðingum til þess að taka úr honum blóðsýni.
Í frétt BBC kemur fram að Owen hafi komið inn í bílinn og sest við hlið Green. Stuttu seinna var Green skotinn sjö sinnum af ástæðu sem ekki liggur fyrir, að sögn lögregluyfirvalda. Lögreglumennirnir veittu fyrstu hjálp á staðnum og Green var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann lést síðar um kvöldið.
„Mín niðurstaða er sú að það sem gerðist í gærkvöldi er saknæmt,“ sagði lögreglustjórinn í Maryland, Hank Stawinski, við fréttamenn innan við sólarhring eftir atvikið. „Undir engum kringumstæðum er þetta ásættanlegt.“
Owen var ekki með myndavél á sér en samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum í ríkinu er unnið að því að koma slíkum búnaði á alla lögreglumenn. Hann er ákærður fyrir manndráp og fleiri brot.
They murdered my cousin. How do you have someone in handcuffs and in a seat belt and shoot them multilpe times.All cops aren't bad but those were. I will fight with the last breath in me for justice. William Green was a family man, a working man. Funny. Loving. Love and miss you. pic.twitter.com/PhM3a6C7uj
— Liv 👸🏾 (@liv__03) January 28, 2020
Stawinski segir að Owen hafi átt aðild að annarri skotárás árið 2011.