Hækkandi hitastig hafi mögulega dreift ungloðnu

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti skýrslu sína um …
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti skýrslu sína um loðnuna á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Vegna þess hve lífs­fer­ill loðnunn­ar er stutt­ur er erfitt að leggja mat á stærð hrygn­ing­ar­stofns­ins. […] Horf­ur fyr­ir vertíðina sem nú ætti að vera í full­um gangi hafa ekki verið góðar miðað við þær upp­lýs­ing­ar sem eru fyr­ir­liggj­andi,“ sagði Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra í munn­legri skýrslu til Alþing­is um nýt­ingu og vist­fræðilega þýðingu loðnu­stofns­ins í dag.

Sagði hann vís­bend­ing­ar um að mikið væri um ung­loðnu sem gef­ur til kynna að vertíð gæti orðið á næsta fisk­veiðiári. Benti hann hins veg­ar á að dreif­ing ung­loðnu hafi breyst, mögu­lega vegna hækk­andi hita­stigs hafs­ins.

Afrán hvala auk­ist

Fram kom í skýrslu sjáv­ar­út­vegs­ráðherra að maður­inn væri í sam­keppni við hvali, fiska og fugla um nýt­ingu loðnunn­ar, en afrán hvala­stofns­ins hef­ur auk­ist í takt við stækk­un stofn­anna á síðustu árum. Þá hef­ur hnúfu­bök­um fjölgað mikið og eru vís­bend­ing­ar um að hver hnúfu­bak­ur éti meira af full­orðinni loðnu en aðrir skíðis­hval­ir.

„Sam­kvæmt mati frá 1997 var heild­ara­frán 12 teg­unda hvala við landið metið um 6 millj­ón­ir tonna á ári. Leidd­ar hafa verið lík­ur að því að skipt­ing­in væri um það bil þrjár millj­ón­ir tonna af krabba­dýr­um, eða átu, tvær millj­ón­ir af fiski og ein millj­ón tonna af smokk­fiski. Útreikn­ing­ar miðað við nýj­ustu upp­lýs­ing­ar um stofn­stærðir og fæðuval [sýna að] afránið hef­ur í heild auk­ist og reikn­ast 6,7 millj­ón­ir tonna, þar af 3,3 millj­ón­ir tonna í fiski. Stór­tæk­ustu af­ræn­ingjarn­ir eru langreyður, hrefna og hnúfu­bak­ur,“ sagði Kristján Þór.

Áhyggj­ur af byggðum

Þing­menn allra flokka tóku til máls og vöktu all­ir þeirra at­hygli á þeim af­leiðing­um sem loðnu­brest­ur annað árið í röð kann að hafa í för með sér fyr­ir þær byggðir þar sem loðnu­veiðar og -vinnsla er fyr­ir­ferðar­mik­il.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir. mbl.is/​Eggert

Þær byggðir sem munu verða fyr­ir höggi vegna loðnu­brests myndu hafa trygg­ari stoðir ef veiðiheim­ild­ir hefðu verið boðnar út, að sögn Þor­gerðar Katrín­ar Gunn­ars­dótt­ur, for­manns Viðreisn­ar. Sagði hún ágóðan af upp­boði geta nýst til þess að byggja innviði á lands­byggðinni.

Þá voru þing­menn einnig sam­mála um mik­il­vægi rann­sókna. „Við stönd­um þjóða fremst í rann­sókn­um á þess­um fiski. Og ég vil minna á að það hafa aldrei verið sett­ir meiri fjár­mun­ir í rann­sókn­ir á loðnu eins og um þess­ar mund­ir,“ sagði Kristján Þór og minnti á að veiðum sé stýrt á grund­velli vís­inda­legr­ar ráðgjaf­ar.

Ólík­ar kenn­ing­ar

Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, sagði mik­il­vægt að leyfa loðnunni að njóta vaf­ans og benti hún á að hnign­un stofns­ins hafi átt sér stað yfir langt skeið. „Það verður ekki skýrt ein­vörðungu með loðnum út­skýr­ing­um um um­hverf­is­breyt­ing­ar og hlýn­un í haf­inu,“ sagði Inga.

Tel­ur hún skýrsl­una gefa til­efni til þess að gruna að Íslend­ing­ar hafi ekki gengið um loðnu­stofn­inn með rétt­um hætti og gagn­rýndi hún meðal ann­ars notk­un flottrolls í stað nót­ar.

Inga Sæland.
Inga Sæ­land. mbl.is/​Hari

Karl Gauti Hjalta­son, þingmaður Miðflokks­ins, spurði meðal ann­ars í ræðu sinni hvort minnk­andi loðnu­stofn kunni að vera af­leiðing þess að færri hval­ir séu veidd­ir. Þá gagn­rýndi Jón Þór Ólafs­son, þingmaður Pírata, sér­stak­lega skort á eft­ir­liti með veiðum og fjár­hags­skort eft­ir­litsaðila.

mbl.is